þriðjudagur, mars 27, 2007

Fuglasöngur

Ohh, það er svo notalegt að vakna upp við fagran fuglasöng á vorin. Það er yndislegt!!

Fór annars í sumarbústað um helgina, hvar vorið var ekki alveg skollið á (reyndar við það að bresta á). Mættum galvaskar og hressar, verulega illa pakkaðar og skóaðar, með mat ofan í heilt bæjarfélag, tölvur, bækur, áfengi, pictionary, kubb og skúffuköku, lengst inn í Þjórsárdal, þar sem við höfðum ákveðið að eyða helginni. Héldum að við værum að villast og bönkuðum uppá hjá bónda nokkrum, sem var að ljúka kvöldverkunum í fjósinu (og bóndakonan reyndar að ljúka kvöldverkum sínum á öðrum stað). Hann glotti eflaust út í bæði þegar hann sá bílkostinn og sagði okkur að við yrðum að rölta þessa leið í bústaðinn. Var svo ljúfur að lána okkur snjóþotudisk til þess að draga farangurinn (mjög lítinn hluta hans reyndar) eins og heimskautaförum einum er lagið. Við hörkuðum í okkur kjark, Anna batt fjöltengið sitt í þotuna og ferðalangarnir klæddu sig í allar tiltækar flíkur, hlóðu á sig þessum magnaða farangri og héldu af stað út í óvissuna. Þarna var farið að hríða nokkuð kröfuglega. Leiðin var greið í fyrstu en eftir að við komumst í gegnum fyrsta hlið þá fór nú róðurinn heldur að þyngjast og snjórinn dýpkaði nokkuð. Veðrið varð hins vegar unaðslegt. Norðurljósin, stjörnurnar og tunglið lýstu okkur leið og rómantíkin varð algjör. Þarna skröltum við fimm, upp brekkur og yfir tún, í gegnum skóginn í hnédjúpum snjónum (náði mér reyndar upp í klof) að það er virtist endalausa leið. Gleðin var ólýsanleg þegar Særún fann loksins bústaðinn góða og þá var ekkert annað en að gefa í, opna bjór, búa um og skella sér svo í heitan pott.
Helgin einkenndist svo af áti, lærdómi, afslöppun, spjalli, meira áti og heitapottsunaði og leiðin í bílinn aftur var mun styttri en við höfðum gert okkur grein fyrir. Þá hafði snjórinn reyndar hopað og við máttum vaða polla og drullu alla leið. Sem var líka ferlega næs eins og flest ef ekki allt þessa helgi.

Ætla að fara að sofa núna svo ég geti notið fuglasöngsins í fyrramálið...

Thelma

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

váá hvað þetta er falleg frásögn hjá þér Thelma mín.. " snjórinn náði okkur uppá hnjám en reyndar náði hann mér uppí klof" hahahaha þú ert fyndin!!! :)

miðvikudagur, mars 28, 2007 2:13:00 e.h.  
Blogger Thelma litla said...

Jújú, maður er heldur stuttur upp til hnésins, ef svo má a orði komast...

föstudagur, mars 30, 2007 8:24:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home